Innskráning í vefpóst

Sláðu inn netfang til að komast inn á vefpóstinn.

Árið 2016 hjá okkur

Krefjandi og spennandi ár að baki

Árið 2016 hefur verið mjög afkastamikið og fjörugt að okkar mati og hefur auðvitað liðið allt of hratt. Við bættum við okkur mannskap til þess að ná að halda í við öll nýju og spennandi verkefnin sem hrönnuðust upp og erum núna 35 manns í heildina. 

Starfsmannafélagið okkar PreStar hefur verið mjög öflugt og haldið starfsfólkinu uppteknu enda alltaf gott að hafa gaman í vinnunni. 

Hugbúnaðar- og veflausnir

Teymið okkar í hugbúnaðar- og vefdeildinni hafði í nógu að snúast á árinu, enda stækkaði deildin um helming og tók að sér mörg skemmtileg og krefjandi verkefni. 

Leikskólakerfið Karellen hefur verið á góðri siglingu á árinu og bættust nokkuð mörg sveitafélög í hóp þeirra sem eru að nota kerfið. Um 110 leikskólar eru nú að nota það í sínu daglega starfi. 

Við opnuðum þrjá nýja Corrian innri vefi hjá fyrirtækjum sem öll eru með 300 eða fleiri starfsmenn. Gengu þessar innleiðingar eins og í sögu. Við breyttum einnig útlitinu á Corrian innri vefjunum sem vakti mikla lukku. 

Amon námskeiðskerfið okkar er glænýr hugbúnaður sem fór vel af stað á árinu og er að reynast fyrirtækjum vel. En með því kerfi gefst fræðslustjóra eða starfsmannastjóra tækifæri á að búa til lesefni eða myndefni og starfsmenn geta tekið próf úr efninu inn á vefnum beint á sínum eigin tíma.

Við slógum heldur ekki slöku við í vefþróuninni og opnuðum 35 glænýja og ferska vefi og fleiri eru á leiðinni strax í janúar. CaraWeb vefumsjónarkerfið okkar er að slá í gegn en auðveldara, einfaldara og skemmtilegra vefumsjónarkerfi er að okkar mati vandfundið.

Rekstrarþjónusta og hýsing

Hópurinn okkar í rekstri og þjónustu heldur sínu striki, en hann sér um rekstur tölvukerfa og notendaþjónustu hjá um 300 fyrirtækjum og stofnunum. Takast þarf á við margar áskoranir í síbreytilegu umhverfi og nýrri tækni. Fjöldi nýrra viðskiptavina bættist í hópinn þetta árið sem er ávalt gleðiefni. 

Við erum sífellt að þróa okkar starf og bjóðum upp á margar nýjungar og má þar nefna Þjónustu með yfirsýn sem innifelur Office 365, notendaþjónustu, vöktun búnaðar, öryggislausnir og fræðslu notenda en þess má geta að þessi pakki, þjónusta með yfirsýn er að gera góða hluti innan veggja smærri og meðalstórra fyrirtækja. 

Áhersla okkar liggur enn sem fyrr í að byggja upp þekkingu í skýjalausnum enda eru tækifæri þar fyrir okkar viðskiptavini að auka hagkvæmni í rekstri tölvumála og byggja upp tölvuumhverfi framtíðarinnar. Mikill vöxtur var í sölu á lausnum frá ManageEngine sem allar hafa það sameiginlegt að auðvelda tölvudeildum rekstur tölvukerfa.

Nú í lok árs var hýsingarumhverfi Premis endurnýjað að fullu. Premis er annar stærsti vefhýsingaraðili landsins og hýsir vefi fyrir hátt í 2000 fyrirtæki. Vefhýsingin mun bráðlega keyra í state-of-the -art umhverfi í sem byggir á öflugum Lenovo netþjónum og Nimble diskastæðum, Cpanel og Qstack. Premis hýsir einnig tölvukerfi fjölmargra fyrirtækja sem nú hafa verið færð yfir á nýjan búnað frá Simplivity. Ljóst er að Premis er tilbúið að takast á við áskoranir framtíðarinnar í hýsingarmálum. 

Tæknisveitin

Tæknisveitin hefur á undanförnum árum sinnt tækniverkefnum inn á heimilum fólks ásamt því að vinna að uppbyggingu ljósnets og sinna bilanaþjónustu fyrir Símann. Á árinu færðust þessi viðskipti frá Símanum til Mílu og við það jukust verkefni Tæknisveitarinnar verulega. 

Áskorun Tæknisveitar á nýju ári er að vinna að uppbyggingu ljósleiðarakerfis Mílu á höfuðborgarsvæðinu en áætlað er að tengja allt að 10.000 heimili til viðbótar inn á kerfið 2017. Starfsmönnum hefur fjölgað á árinu og enn vantar okkur fleiri snillinga í þetta teymi.

Við hjá Premis lítum björtum augum fram í árið 2017 og hlökkum til að takast á við öll nýju og spennandi verkefnin sem það ár mun veita okkur.

Við þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.